Ferðaþjónustufyrirtækið Kynnisferðir hagnaðist ári nam 223 milljónir króna á síðasta ári og námu tekjur félagsins 6,1 milljarði. EBITDA-hagnaður félagsins var ríflega 1,6 milljarðar eða 27% af veltu. Eiginfjárhlutfall Kynnisferða í lok síðasta árs var 42,85%.

„Við erum afar sátt við þessa niðurstöðu, sem er í samræmi við áætlanir okkar. Á síðasta ári fór að draga úr neikvæðum áhrifum Covid faraldursins, fjöldi ferðamanna jókst á ný og fyrirtækið var vel undirbúið undir þá aukningu. Reksturinn það sem af er ári 2022 er jafnframt í samræmi við áætlanir okkar, félagið er öflugt á sínu sviði og mun halda áfram að vaxa og eflast,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri félagsins, í fréttatilkynningu.

Kynnisferðir og Eldey sameinuðust í eitt félag á síðasta ári og í maí var tilkynnt um að samstæða áðurnefndra fyrirtækja, auk þeirra fimm ferðaþjónustufyrirtækja sem eru í eigu félagsins, yrði starfrækt undir vörumerkinu Icelandia. Fyrirtækin eru Reykjavík Excursions/Kynnisferðir, Icelandic Mountain Guides, Iceland Rovers, Dive.is og Flybus. Auk þess er félagið umboðsaðili Enterprise Rent-a-car, er undirverktaki Strætó bs. í akstri á höfuðborgarsvæðinu og rekur dráttarbílafyrirtækið Garðaklett.

Þá er Icelandia hluthafi í nokkrum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum eins og Fontana á Laugarvatni, Íslenskum heilsulindum og Raufarhólshelli.

„Starfsfólk okkar hefur sýnt mikla útsjónarsemi við þær erfiðu kringumstæður sem ríkt hafa á þessum markaði og heldur áfram sínu góða starfi við að bjóða upp á bestu þjónustu sem hægt er að veita og þá upplifun sem viðskiptavinir okkar búast við,“ segir Björn.