Í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar var fjallað ítarlega um uppgang sænsku tónlistarveitunnar Spotify og stofnandann Daniel Ek. Samkvæmt heimildum Frjálsrar verslunar bauðst íslenska fjárfestingafélaginu Eyri Invest að fjárfesta í Spotify þegar fyrirtækið var enn lítill sænskur sproti en kaus að láta kyrrt liggja.

Spurður út í þetta segir Þórður Magnússon, stofnandi og stjórnarformaður Eyris, að hann hafi vissulega vitað af og kynnst því sem Spotify var að gera í frumbernsku fyrirtækisins. Hins vegar minnist hann ekki að Eyri hafi verið boðið formlega að fjárfesta í Spotify.

„Það eru fjölmörg tækifæri sem koma yfir okkar borð og við sjáum. Ég vissi af félaginu nánast á fyrstu stigum. Það væri ágætt að vera hluthafi þarna,“ segir Þórður léttur.

Hann bendir á að Eyrir hafi alltaf lagt upp með að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og aðstoða þau við að koma sér á framfæri erlendis. Eyrir hafi helst horft til erlendra fyrirtækja ef slík fjárfesting gæti greitt götu fyrir íslensk félög í eignasafninu.

Nánar er fjallað um Spotify og tónlistarveitur í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í byrjun mars. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .