Luis Arreaga lætur af störfum sem sendiherra Bandaríkjanna nú í vikunni og fer af landi brott á laugardaginn. Hann segir dvölina hér á landi hafa verið afar góða og að hann sé þakklátur fyrir það hve vel Íslendingar hafi tekið honum og fjölskyldu hans. Hann sé sérstaklega hrifinn af íslenskri menningu, en Íslendingum tókst að gera þungarokksaðdáanda úr sendiherranum.

„Ég hef verið hér í rúm þrjú ár, kom í september 2010. Nýr sendiherra, Robert Barber, hefur verið tilnefndur, en öldungadeildin á eftir að staðfesta skipunina. Það liggur ekki fyrir nákvæmlega hvenær það verður, en vonandi mun þingið samþykkja hann í desember þannig að hann geti komið sem allra fyrst hingað.“

Arreaga segir Barber munu verða mjög góðan sendiherra, en hann hafi tengingar inn í bandarískt viðskiptalíf sem muni gagnast honum í starfi sínu hér, sem og Íslandi og íslenskum fyrirtækjum sem vilji eiga viðskipti við Bandaríkin. „Hann hefur sagst hlakka til að koma hingað.“

Arreaga yfirgefur Ísland á laugardaginn og segir hann að það geti verið gott að láta stuttan tíma líða á milli sendiherra í sendiráðum, því það gefi starfsfólkinu tíma til að aðlagast nýjum áherslum. Hann segist hafa notið verunnar hér á landi gríðarlega. „Mín upplifun og fjölskyldu minnar er sú að Íslendingar hafi hleypt okkur inn í líf sitt. Þeir hafa leyft okkur að kynnast lífi þeirra. Þetta er eina leiðin til að mynda tengsl sem ná undir yfirborðið. Okkur hefur verið boðið í fjölskylduboð og okkur þykir það mikill heiður, því þú býður ekki hverjum sem er inn á heimili þitt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .