*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 29. september 2020 11:33

Kynntu 25 milljarða aðgerðir

Tryggingagjald lækkar um 0,25%, endurgreiðsla VSK framlengd og beinir styrkir verða veittir til fyrirtækja.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir kynnti aðgerðirnar nú fyrir skemstu.
Árni Sæberg

Full endurgreiðsla virðisaukaskatts verður framlengd út næsta ár og tryggingagjald verður lækkað um 0,25% tímabundið.

Beinir styrkir verða veittir til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir „tekjuhruni“ vegna heimsfaraldursins fyrir um 6 milljarða. Þá verða framlög til nýsköpunarmála aukin um 5 milljarða í komandi fjárlögum, og rýmri heilmidir veittar til afskrifta nýfjárfestinga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti nú fyrir stuttu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar aðgerðir sem ætlað er að halda friðinn á vinnumarkaði og stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika, en blikur hafa verið á lofti um uppsögn lífskjarasamningsins.

Aðgerðirnar eru átta talsins, og heildarútgjöld vegna þeirra eru talin geta numið allt að 25 milljörðum króna, en tekið er fram að umtalsverð óvissa ríki um endanlega upphæð.

1. „Allir vinna“ framlengt
Full endurgreiðsla virðisaukaskatts verður framlengd út næsta ár. Áætlaður kostnaður er 8 milljarðar króna.

2. Tryggingagjald lækkað um 0,25% út næsta ár
Tryggingagjald verður lækkað út næsta ár þannig að upphæð þess haldist óbreytt þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir nú um áramót, sem er um 0,25% samkvæmt Katrínu.

3. 6 milljarða beinir styrkir
Fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir „tekjuhruni“ vegna faraldursins verða veittir beinir styrkir. Gert er ráð fyrir um 6 milljörðum króna í úrræðið, en það verður nánar útfært á næstu vikum.

4. Afskriftum nýfjárfestinga flýtt
Afskriftum nýfjárfestinga, „með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið“, verður flýtt, og skoðaðar verða leiðir til að hvetja almenning til hlutabréfakaupa.

5. Framlög til nýsköpunarmála aukin um 5 milljarða
Framlög til nýsköpunarmála í fjárlögum verða aukin um 5 milljarða miðað við árið í ár, og 10 milljarða m.v. árin þar á undan. Stofnun Kríu fjárfestingasjóðs, Matvælasjóðs og ívilnanir vegna rannsókna- og þróunarstarfs nefnd.

6. Úrbætur í skipulagsmálum
Úrbætur með hliðsjón af niðurstöðum átakshóps í húsnæðismálum og ráðgefandi vinnu OECD um samkeppnishindranir.

7. Frumvarp um lífeyrismál lagt fram í haust
Áður kynnt frumvarp um lögfestingu iðgjalds, jafnræði sjóðfélaga með tilliti til almannatrygginga og heimildir til ráðstöfunar tilgreindrar séreignar í tengslum við öflun húsnæðis verður lagt fram á haustþingi.

8. Frumvörp vegna lífskjarasamningsins
Frumvarp til starfskjaralaga, húsaleigulaga, til höfuðs kennitöluflakki og um vexti og verðtryggingu verða lögð fram á haustþingi í tengslum við skuldbindingar ríkisins vegna lífskjarasamninganna frá því í fyrra.

Fréttin hefur verið uppfærð.