Stjórnvöld tilkynntu í hádeginu um að á annan tug úrræða verða framlengd eða innleidd á næstu dögum til að mæta afleiðingum faraldursins. Breytingarnar ná meðal annars til lokunarstyrkja, viðspyrnustyrkja og hlutabótaleiðarinnar. Gefin verður út ný ferðagjöf sem gildir út sumarið. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins .

Lagt er til að úrræðið um lokunarstyrki, sem átti að renna sitt skeið í lok júní næstkomandi, verði framlengt út árið 2021 ásamt því hármarksfjárhæð verður hækkuð. Viðspyrnustyrkir verða einnig framlengdir út nóvember næstkomandi og viðmið lágmarks tekjufall hækkað úr 40% í 60%.

Átakið Hefjum störf mun taka við hlutabótaleiðinni. Átakið felur í sér að fyrirtæki með ráðningarsamband við einstakling sem fær greiddar hlutabætur geta fengið styrk til endurráðningar í fyrra starfshlutfall. Styrkurinn miðast við hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hlutfalli við hækkun starfshlutfalls viðkomandi einstaklings, auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að fjóra mánuði.

Barni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp um framlengdan frest þeirra sem hafa fengið frest til greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds og geti sótt um að dreifa þeim greiðslum í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur með fyrsta gjalddaga 1. júlí 2022. Gildistími úrræðisins um úttekt séreignarsparnaðar verður einnig framlengdur út árið.

Jafnframt munu þeir sem hafa verið atvinnulausir frá því fyrir að faraldurinn hófst og ekki getað notið lengingar á tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta. Styrkurinn nemur að hámarki 100 þúsund krónur. Einnig verður tímabilið sem nýta má sex mánaða tekjutengdar atvinnuleysisbætur framlengt til 1. febrúar 2022.

Meðal annarra úrræða sem voru kynnt var 30 þúsund króna barnabótaauki sem verður greiddur með hverju barni. Veitt verður viðbótarframlag að fjárhæð 600 milljónum króna til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni ásamt 200 milljónum króna í viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum Covid-19 gagnvart börnum, eldri borgurum, öryrkjum, fólki af erlendum uppruna og öðrum félagslega viðkvæmum hópum.