Evrópusambandsríkið Kýpur mun hætta að bjóða ríkum útlendingum ríkisborgararétt í kjölfar uppljóstrunar um að stjórnmálamenn myndu styðja við umsókn skáldaðs kínversks fjárfestis sem hefði verið sakfelldur fyrir peningaþvætti.

Tilkynnti ríkisstjórn Kýpur að hið sjö ára gamla kerfi sem bjóða stórum fjárfestum í landinu upp á ríkisborgararétt myndi ljúka 1. nóvember næstkomandi vegna misnotkunar og kerfislægra ágalla. Þó virðist sem stjórnin í höfuðborginni Níkósíu hyggist koma verkefninu sem kallað hefur verið „gullnu vegabréfin“ aftur á fót í breyttri mynd.

Meðal þeirra sem fengið hafa ríkisborgararétt í gegnum kerfið eru átta ættingjar og samstarfsmenn einræðisherra Kambódíu, Hun Sen, sem og til malasíska fjárfestisins Jho Low, sem sakaður hefur verið um að stela milljörðum dala frá þjóðarsjóði lands síns.

Þurfa að fjárfesta fyrir ríflega 300 milljónir í fasteign

Verkefnið hefur tryggt þúsundum nýrra ríkisborgara vegabréf og veitt um 6 milljörðum evra inn á fasteignamarkað landsins, en til að geta sótt um það þarf viðkomandi að hafa fjárfest í það minnsta 2 milljónum evra í fasteign í landinu, eða sem samsvarar 326 milljónum íslenskra króna.

Fréttaskýringarþáttur á vegum arabísku Al Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar sem birtist í vikunni jók þrýstingin á stjórnina eftir fjölda hneykslismála tengdum verkefninu vegna þess að það hefur nýst glæpamönnum og fólki tengdum spilltum stjórnvöldum.

Í myndbroti kemur fram að forseti þings Kýpur, næstæðsti valdamaður landsins, sem og þingmaður landsins buðust til að aðstoða kínverska aðstoðarmanninn við að tryggja sér kýpverskt vegabréf.

Þeir hafa þó báðir hafnað því að hafa brotið af sér og segist forseti þingsins hafa tilkynnt um fundinn við rannsóknarblaðamennina sem viltu á sér heimildir til eftirlitsaðila gegn spillingu. Hann hefur tekið sér hlé frá störfum en þingmaðurinn hefur sagt af sér og segir að engt hafi verið fyrir sig gildru.

ESB skoðar málshöfðun gegn Kýpur, Möltu og Búlgaríu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en Kýpur er meðlimur í sambandinu, skoðar nú að höfða mál gegn stjórnvöldum í landinu, en einnig gagnvart stjórnvöldum í Möltu og Búlgaríu þar sem sams konar verkefni eru til staðar.

Með vegabréfi í einu landi sambandsins geta ríkisborgarar ferðast um og flutt milli allra landa þess og hefur því forseti framkvæmdastjórnarinnar, Ursula von der Leyen varað við sölu á „gullnum“ vegabréfum.

„Við horfðum í forundran á æðstu valdamenn selja evrópskan ríkisborgararétt til að græða sjálfir á því,“ hefur FT eftir framkvæmdastjórninni í kjölfar frumsýningar þáttarins. „Von der Leyen forseti var skýr þegar hún sagði að evrópsk gildi væru ekki til sölu.“