Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, segir að renni viðræður kýpverskra stjórnvalda við Evrópusambandið út í sandinn eða ef Kýpur stendur, með einum eða öðrum hætti, ekki við fjárhagslegar skuldbindingar sínar gæti það stefnt í voða „því jákvæða andrúmslofti“ sem einkennt hefur evrópska markaði frá því í júlí í fyrra.

Ummælin koma í kjölfar þess að Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði að Kýpur væri ekki nógu stórt hagkerfi til að það skipti máli fyrir Evrópusambandið í heild sinni. Þvert á móti er haft eftir Draghi í breska blaðinu Telegraph að kýpverskir bankar séu nógu stórir til að fela í sér kerfislæga áhættu fyrir evrusvæðið.

Kýpur gæti þurft allt að 17 milljarða evra (um 2.950 milljarða íslenskra króna) fjárhagsaðstoð til að koma þarlendum bönkum til bjargar. Er fjárhæðin jafnstór kýpverska hagkerfinu, en skuldir bankakerfisins eru hins vegar um 130 milljarðar evra, um sexföld árleg landsframleiðsla Kýpur. Um 40% eigna kýpverskra banka eru í Grikklandi.

Peningaþvætti og svikin loforð

Í þýska þinginu verða þær raddir háværari sem vilja ekki að tekið verði á Kýpur með neinum silkihönskum. Er það einkum vegna þess að ekki alls fyrir löngu lak út skýrsla þýsku leyniþjónustunnar þar sem því er haldið fram að rússneska mafían nýti sér gjarnan banka á Kýpur til að þvo illa fengið fé. Þá hefur ESB ákveðið að halda ekki áfram viðræðum við kýpversk stjórnvöld fyrr en eftir forsetakosningar þar í landi í febrúar, því sambandið vill ekki lengur ræða við hinn kommúníska forseta Demetris Cristofias, sem hefur alfarið hafnað kröfum ESB og AGS um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum.

Menn eru ekki á eitt sáttir um hvaða leið eigi að fara í málefnum Kýpur. Olli Rehn, sem sér um peningamál í framkvæmdastjórn ESB segir að ef Kýpur verði ekki komið til aðstoðar þá gæti það rofið trúverðugleika á peningamörkuðum á evrusvæðinu og gæti leitt til þess að Kýpur þurfi að yfirgefa evrusvæðið. Þá er haft eftir Dimitris Drakopoulos hjá Nomura bankanum að ef ákveðið verði að einkaaðilar í hópu lánadrottna Kýpur þurfi að taka á sig fjárhagslegt högg vegna endurskipulagningar þar í landi muni það hafa mjög neikvæð áhrif. ESB hafi lofað því að það sem gerðist í tilviki Grikklands myndi ekki endurtaka sig. Segir hann að ef sú leið verði farin aftur í tilviki Kýpur myndi það leiða til þess að fjárfestar færu að hugsa sinn gang ef þeir eiga t.d. portúgölsk ríkisskuldabréf. Ekki væri hægt að treysta því að ekki yrði sama leið farin þar.