Þýska flugfélagið Lufthansa mun kyrrsetja fleiri farþegaþotur sínar yfir vetrartímann en áður hafði verið stefnt á, þar sem að mikil aukning COVID-19 smita víða um Evrópu og heim allan hefur dregið enn frekar úr eftirspurn eftir ferðalögum. Reuters greinir frá.

Lufthansa, auk dótturfélaganna Eurowings, Swiss, Austrian Airlines og Brussels Airlines, mun kyrrsetja 125 fleiri vélar en áætlanir gerðu áður ráð fyrir, að því er kemur fram í bréfi forstjórans Carsten Spohr til starfsmanna.

Mun þetta leiða til þess að vinnustundir starfsmanna verða skornar enn meira niður. Mun meginþorri þeirra fara á bótaleið þýskra yfirvalda, sem svipar til hlutabótaleiðar ríkisstjórnar Íslands.