Ólíklegt er að Boeing 737 Max vélarnar sem kyrrsettar hafa verið frá því í apríl fái flugrekstrarleyfi til að flytja farþega fyrr en í fyrsta lagi í janúar 2020.

Þetta hefur WSJ eftir sífellt fleiri forystumönnum í stjórnkerfinu og fluggeiraum, þó enn sé ekki búið að taka neinar ákvarðanir. Þó virðast nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að vélarnar verði orðnar rekstrarhæfar í byrjun næsta árs, þá eftir háannatímann í kringum jólaösina.

Í heildina hefur því verið frestað fimm sinnum að samþykkja uppfærslu á sjálfstýribúnaði, og meðfylgjandi þjálfunaráætlun fyrir flugmenn, sem kennt hefur verið um tvö mannskæð flugslys sem urðu í vetur á 5 mánaða tímabili í vélunum við flugtak.

Þess í stað hefur rannsóknin á vélunum verið víkkuð út í sífellu til að ná yfir sífellt fleiri þætti, allt frá neyðaráætlanir til mögulega gallaðra raftækja. Flækjustigið hefur svo aukist því sumir þessara þátta ná til eldri útgáfa af 737 vélum Boeing.

Nýja tímalínan er þvert á vonir og væntingar flugfélaga sem bjuggust fyrst við því að fá vélarnar inn í sumar en hafa nú mörg hver gert áætlanir inn í haustið, þar á meðal Icelandair sem þegar hefur fengið þrjár slíkar vélar afhentar.

Boeing vonast enn eftir vélunum fyrir jólaösina

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun bendir margt til þess að Boeing sé að undirbúa nafnabreytingu á vélunum áður en þær komast aftur í notkun, enda vörumerkið orðið mjög laskað.

Enn virðast forystumenn Boeing og sumir hjá bandarískum flugmálayfirvöldum vonast eftir því að vélarnar komist í gagnið á ný fyrir áramót, en aðrir segja raunsærra að búast við að það gangi eftir í janúar, svona miðað við hvernig rannsókn málsins hefur gengið hingað til.

Til viðbótar við tafirnar hafa flugfélög bent á að þau muni þurfa allt að 45 daga eingöngu til þess að geta fullnustað nauðsynlegar athuganir og viðhaldsferla á vélunum sem nú liggja ónotaðar á flugstæðum víða um heim áður en þær geta hafið sig til flugs á ný.