Meðferð efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og síðar sérstaks saksóknara á máli fjórmenninga, sem grunaðir voru um brot gegn lögum um gjaldeyrisviðskipti, braut gegn ákvæðum laga, mannréttindasáttmála og stjórnarskrár um rétt til hraðrar málsmeðferðar. Kemur þetta fram dómi sem féll í Hæstarétti í dag þar sem kyrrsetningu á eignum fjórmenninganna var aflétt. Mennirnir eru þeir Markús Máni Michaelsson, Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynisson og Ólafur Sigmundsson.

Í dómnum er rakin atburðarásin, sem hófst með kæru frá Fjármálaeftirlitinu til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í nóvember 2009. Í lok janúar gripu lögregluyfirvöld til nokkuð umfangsmikilla rannsóknaraðgerða og tryggingaráðstafana, þar má meðal kyrrsetningu eigna. Nokkuð var gert úr þessu máli í fjölmiðlum. Héldu þau Helgi Magnús Gunnarsson, fyrrverandi saksóknari efnahagsbrota, Gunnar Andersen, forstjóri FME, og Ingibjörg Guðbjartsdóttir frá Seðlabanka Íslands, fréttamannafund þar sem Helgi sagði m.a. að hin meintu brot gætu hafa haft áhrif á veikingu krónunnar.

Segir í dómi Hæstaréttar segir að ekki hafi verið aflað gagna síðan þá ef frá eru taldar skýrslur sem teknar voru af sjö mönnum snemma árs 2011. Hafi saksóknari ekki gert það líklegt að ekki hafi verið unnt að ljúka úrvinnslu gagna á mun skemmri tíma en gefist hefur til. Var embætti sérstaks saksóknara gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem var talinn 400.000 krónur í tilviki hvers fjórmenninganna.