Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði í vikunni beiðni Skúla Þorvaldssonar um að kyrrsetningu á yfir sjö milljörðum króna yrði aflétt. Féð var kyrrsett að beiðni sérstaks saksóknara vegna rannsóknar og ákæru í Marple-málinu. RÚV greinir frá þessu .

Málið snýr að meintum fjárdrætti og umboðssvikum og hafa Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, verið ákærð. Þeim er gefið að sök, í ákæru að hafa skipulagt og framkvæmt átta milljarða króna fjárdrátt árin 2007 og 2008.

Skúli er ákærður fyrir hylmingu í málinu og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fyrir hlutdeild. Allir ákærðu neita sök. Aðeins eitt skjal fannst um viðskiptin og sögðust þeir Hreiðar Már og Magnús ekkert kannast við að slík viðskipti hafi átt sér stað.