Isavia og Flugfélagið Ernir hafa náð samkomulagi um uppgjör vegna ógreiddra notenda- og flugleiðsögugjalda félagsins innanlands. Kyrrsetningu á flugvél Flugfélagsins Ernis hefur því verið aflétt. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu Isavia og Flugfélagsins Ernis.

Isavia og Flugfélagið Ernir fagna því að niðurstaða hafi fengist í málið og binda vonir við áframhaldandi farsælt samstarf félaganna segir þar jafnframt.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um sagði Hörður Guðmundsson forstjóri Ernis frá því í nýlegu viðtali hvernig fasteign félagsins á Reykjavíkurflugvelli væri skráð á ríkið vegna þess að ekki fengist lóðaleigusamningur þrátt fyrir að félagði hefði byggt það.

Húsið hefði kostað sams konar upphæð og félagið skuldaði Isavia, en af þessum sökum væri ekki hægt að veðsetja það. „Á sama tíma og skuldin hleðst upp hjá ríkisfyrirtækinu Isavia, þá er húsið okkar má segja í gíslingu hjá ríkinu,“ sagði Hörður.

Vegna samnings við ferðaþjónustufyrirtæki sem keypt hefði upp langflest sætin í vélinni í allt sumar sagði Hörður að félaginu lægi á að fá Dornier vélina í notkun , m.a. til að geta þjálfað upp mannskapinn á hana, en biðin væri félaginu kostnaðarsöm.

Hörður sagði jafnframt frá því að til stæði að fá aðra Dornier flugvél lánaða, en áður hafði komið fram vilji hans til að fá aðra slíka vél til landsins, þrátt fyrir gríðarlegan langan biðtíma með að fá vélina skráða . Á sínum tíma þegar kom í ljós að vélin hefði verið kyrrsett sagði Hörður þó að „Engin WOW væri fyrir dyrum“ hjá félaginu.

Einnig sagði Hörður frá löngum flugmannsferli sínum og hrakandi ástandi flugvalla á landinu , en líka skoðunum sínum á stöðu flugmála landsins og hugmyndum stjórnvalda á lausnum .