Arion banki samdi nýverið um að Jóhannes myndi láta af störfum sem stjórnarformaður Haga og að hann afsalaði sér forkaupsrétti sínum.

Bankinn gerði einnig kyrrstöðusamning við Gaum,fyrrum aðaleiganda Haga. Í því felst að bankinn mun ekki taka félagið yfirá meðan endurskipulagning þess fer fram. Lengd samningsins fæst ekki uppgefin. Óljóst er hvaða eignir eru inni í Gaumi þar sem félagið hefur ekki skilað ársreikningi frá því fyrir árið 2007. Félagið er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar föður hans, Kristínar systur hans og annarra fjölskyldumeðlima.

Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Gaums, hefur sagt að beinar skuldir félagsins séu um sex milljarðar króna. Arion banki hafi tekið yfir ábyrgðarskuldir vegna Haga. Hvað fáist upp í um 50 milljarða króna skuld 1998 ehf. við Arion banka á eftir að koma í ljós þegar Hagar fara á markað.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kyrrstöðusamningurinn hafi verið hluti af því samkomulagi sem Arion banki gerði við Jóhannes Jónsson um að hann hætti aðkomu að Högum.

-Nánar í Viðskiptablaðinu.