Spænska hagkerfið óx ekkert á milli fjórðunga á þriðja ársfjórðungi samkvæmt nýjum tölum sem spænska hagstofan hefur birt og BBC greinir frá. Þegar litið er til tólf mánaða tímabils nam vöxturinn aðeins 0,8%. Þegar þessar tölur eru skoðaðar í samhengi þess að á öðrum fjórðungi var aðeins 0,2% vöxtur á milli fjórðunga dylst fáum að enn er að harðna á dalnum í spænska hagkerfinu og ljóst má vera að Spánn stefnir inn í niðursveiflu, þ.e. tvo samdráttarfjórðunga í röð.

Innlend eftirspurn er þegar farin að dragast saman og er það vöxtur útflutnings sem kemur í veg fyrir samdrátt. Atvinnuleysi í landinu er 22% og skal engan undra að lántökukostnaður spænska ríkisins hefur aukist umtalsvert að undanförnu.