Fyrirtækið Norðursigling á Húsavík stefnir að því að rafmagnsvæða allan flotann. Í vikunni var fyrsta skrefið stigið þegar nýtt rafmagnskerfi og vél var sett í eikarskútuna Ópal. Báturinn mun því hvorki losa koltvíoxið (CO2) né gefa frá sér vélarhljóð, sem þýðir að hann getur "læðst" að hvölunum.

Árni Sigurbjarnarson, eigandi Norðursiglingar, segir að verkefnið hafi hafist árið 2012. Þetta sé tilraunar- og þróunarverkefni sem unnið sé í samstarfi við innlenda og erlenda aðila. Nánast allur rafmagnsbúnaðurinn sé sérhannaður fyrir Norðursiglingu.

Fyrirtækið Naust Marine í Hafnarfirði hannaði rafmagnskerfið sjálft. Batteríið er aftur á móti hannað í Danmörku og Sviss og skrúfan í samstarfi við fyrirtæki í Svíþjóð og Noregi.

„Skrúfan getur bæði virkað til framdriftar og sem túrbína, sem framleiðir rafmagn," segir Árni, en það þýðir til dæmis að ef siglt er með seglum getur skrúfan hlaðið batteríið. „Þetta er auðvitað tilraunar- og þróunarverkefni en það mun koma í ljós núna á næstu vikum hvernig þetta virkar allt saman. Þetta er í fyrsta skiptið sem þetta er gert í heiminum."

Árni segir að Norðursigling hafi mótað sér ákveðna stefnu í umhverfismálum og rafmagnsvæðing Ópal sé hluti af þeirri stefnu.

„Síðan kostar rafmagnið einn tíunda af því sem það kostar að kaupa olíu og til lengri tíma er því mikill sparnaður fólginn í þessu.

Við eigum að geta farið í heila hvalaskoðunarferð á fullri hleðslu. Gamla vélin verður nýtt sem varaafl og getur framleitt rafmagn inn á batteríið. Ef við þurfum að hlaða batteríið með vélinni þá tekur það svona einn og hálfan til tvo tíma en í landi mun taka tæpa þrjá tíma að hlaða. Ef við notum seglin þá getum við notað skrúfuna til að hlaða batteríið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .