Gert er að ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á olíu muni lækka eftir að samkomulag náðist um kjarnorkuáætlun Írans. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir í samtali við mbl.is að sú lækkun ætti að skila sér til íslenskra neytenda.

VB.is greindi frá því í morgun að tímamóta samkomulag hafi náðst í Vín í morgun um kjarnorkuáætlun Írans. Með nýja samkomulaginu verður viðskiptabanni við Íran aflétt og þar með verður opnað á flæði olíu frá Íran, sem er fjórði stærsti olíuframleiðandi í heiminum.

Runólfur segir að óbreyttu þýði samkomulagið aukið framboð á olíu í heiminum og þar með lækkun heimsmarkaðsverð og að það eigi að skila sér hér. Hann bendir þó á að í sögunni hafi orðið atburðir sem virðast hafa haft minni áhrif á olíu­fram­leiðsluna en maður ætlaði.