*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 18. júlí 2020 12:01

Lægra raforkuverð til framtíðar

Búist er við að raforkuverð verði lægra en áður hefur þekkst en framleiðslukostnaður af vind- og sólarorku fer lækkandi.

Alexander Giess
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Það er ljóst að raforkuverð núna er mjög lágt. Svona sögulega séð hefur það, held ég, aldrei verið lægra og tengist það samdrætti vegna COVID. Að auki hafa orðið ákveðnar breytingar að því leytinu til að vind- og sólarorka, sem drífur áfram uppbyggingu endurnýtanlegrar orku, hefur verið að lækka mikið í verði. Því tel ég að við munum ekki sjá jafn há verð og við sáum fyrir nokkrum árum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Raforkuverð hefur lækkað umtalsvert það sem af er ári og telur Hörður að núverandi raforkuverð sé undir kostnaðarverði og komi því til með að hækka. Aðspurður segir hann erfitt að geta sér til um hversu hátt verðið fari en að verð Landsvirkjunar sé ávallt háð markaðsaðstæðum og kostnaðarverði. Hann bætir við að markmið Landsvirkjunar sé að bjóða samkeppnishæft verð þar sem horft er til annarra Evrópuþjóða og þeirra markaða sem viðskiptavinir þeirra starfa á. 

Til marks um lækkun raforkuverðs kostaði hver megavattstund á norræna raforkumarkaðnum Nordpool tæplega 39 evrur að meðaltali árið 2019. Í janúar á þessu ári var verðið um 24 evrur og hafði því lækkað um 38%. Í apríl síðastliðnum var verðið á megavattstund komið niður í rúmlega 5,2 evrur og í júní var verðið 3,15 evrur, um 8% af meðalverði ársins 2019.

Veðurfar hefur áhrif á verðmyndun

„Raforkuverð víða í Evrópu hefur verið geysilega lágt um skeið. Ástæðan er offramboð, meðal annars vegna óvenju hárrar stöðu í uppistöðulónum og mikils vinds, sem eykur raforkuframleiðslu. Þetta er ekki viðvarandi ástand og það sem skiptir máli er að skoða orkuverð til lengri tíma.

Samhliða offramboði dempast eftirspurnin sökum COVID og hafa báðar þessar orsakir skammtímaáhrif til verðlækkunar á markaði. Það blasir við að verðið mun hækka, samanborið við hvað það er í dag, við bara vitum ekki hvað mikið og hvenær,“ segir Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.