Icelandair hóf í morgun að bjóða nýjan valkost, Economy Light, sem gerir viðskiptavinum kleift að ferðast á lægra verði án þess að innritaður farangur sé innifalinn í verðinu. Þeir sem bóka Economy Light munu njóta sömu þjónustu um borð og aðrir farþegar og 10 kg handfarangur er innifalinn að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair segir félagið vera að gera ýmsar breytingar á þjónustu sinni, þar á meðal sé þessi nýi valkostur. „Hann hentar mjög vel fyrir þá sem eru á leið í stutta helgarferð eða viðskiptaferð þar sem ekki þarf mikinn farangur,“ segir Guðmundur.

„Þeir farþegar munu eftir sem áður njóta góðs af þjónustu Icelandair – með afþreyingarkerfi, óáfengum drykkjum í boði hússins og þægilegu sætaplássi.“ Á sama tíma fá tvær af sígildum vörum Icelandair ný nöfn: Economy Class verður Economy Standard og Economy Class Flex verður Economy Flex.

„Við erum að auka breiddina á vöruframboði okkar og koma til móts við mismunandi óskir markaðarins. Við gerum þó ráð fyrir því að Economy Standard, þar sem innritaður farangur er innifalinn, muni áfram verða okkar vinsælasta vara“, segir Guðmundur.

Um Icelandair

Meirihluti farþega í alþjóðaflugi Icelandair flýgur milli Evrópu og Norður-Ameríku með tengingu á Keflavíkurflugvelli. Í dag flýgur félagið til 20 áfangastaða í Bandaríkjunum og Kanada og 30 borga Evrópu og gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði í heild rúmlega 4 milljónir á þessu ári.

Icelandair býður upp á yfir 600 klukkustundir af afþreyingu í sætisbaki og þráðlaust net allt frá því stigið er um borð og þar til komið er í flugstöð fyrir alla farþega á öllum flugleiðum félagsins.