Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði á fundi Viðskiptaráðs um framtíð fjármálakerfisins í dag að ýmsar breytingar þyrfti að gera á íslensku fjármálalífi. Hann sagði að eftirlit með fjármálafyrirtækjum ætti að vera sambærilegt við það sem er í nágrannalöndum Íslands. Áherslan ætti hins vegar að vera á gæði eftirlitsins, en umfangið ætti ekki að vera meira en stærð fjármálakerfisins kallaði á.

Þá sagði hann reglur um eigið fé banka nú vera mjög strangar, en ekki of strangar miðað við núverandi ástand. Til lengri tíma litið gætu kröfurnar átt að vera minni.

Hvað varðar rekstur bankanna sagði Bjarni að hærra hlutfall arðsemi þeirra ætti að koma frá reglulegri starfsemi og að heimili og atvinnulíf kalli nú á hagkvæmari rekstur bankanna og þar af leiðandi á betri kjör frá þeim.