Stóru tæknifyrirtækin munu greiða lægri skatta í Bretlandi við nýja alþjóðlega skattasamkomulag G7 ríkjanna heldur en við núverandi stafræna þjónustuskatta sem eru við lýði, samkvæmt útreikningum hugveitunnar TaxWatch. Hún gerir ráð fyrir að Amazon, eBay, Facebook og Google greiði allt að 233 milljónum punda, eða um 40 milljörðum króna, minna í skatta undir nýja samkomulaginu. Financial Times greinir frá.

G7 ríkin samþykktu um síðustu helgi 15% lágmarksskatt á alþjóðleg fyrirtæki og að þjóðir geti skattlagt 20% hagnaðar hjá stærstu og arðbærustu fjölþjóðafyrirtækjum heims með yfir 10% hagnaðarframlegð. Í samningnum var einnig kveðið á um að Bretland og aðrar þjóðir sem hafa lagt á stafræna þjónustuskatta (e. digital service tax) munu einhliða afnema þá.

TaxWatch heldur því fram að niðurstaðan muna leiða til nettó skattataps hjá framangreindum tæknifyrirtækjum. Skattheimta frá Google dragist saman úr 219 milljónum punda í 50 milljónir undir G7 samningnum. Að sama skapi mun Facebook greiða 27,7 milljónir punda í stað 49 milljóna.

Amazon greiðir um 50 milljónir punda í breska stafræna þjónustuskattinn. Óljóst er hvernig nýja samkomulagið nái til Amazon þar sem hagnaðarhlutfall fyrirtækisins var undir 10% árið 2020, m.a. vegna endurfjárfestinga. TaxWatch áætlar þó að skýjaþjónustan Amazon Web Services þurfi að greiða 10,1 milljón punda undir G7 samningnum.