*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 29. apríl 2021 10:08

Lægri tekjur en bætt afkoma

Hagnaður Advania á Íslandi jókst um 26% milli ára og nam 614 milljónum króna á síðasta ári.

Ritstjórn
Framkvæmdastjórn Advania
Aðsend mynd

Hagnaður Advania á Íslandi nam 614 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 486 milljóna hagnað árið 2019. Tekjur Advania drógust hins vegar saman um 2% milli ára og voru alls 15,1 milljarður króna á síðasta ári. 

Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins jókst um 29% milli ára og nam 959 milljónum króna árið 2020. Í tilkynningu félagsins segir að það megi meðal annars rekja til lækkun á ýmsum reglulegum kostnaði. 

Kostnaðarverð seldra vara og þjónustu lækkaði um 222 milljónir króna milli ára og nam 5,2 milljörðum, samkvæmt ársreikningi. Meðaltal stöðugilda fækkaði um 31 á milli ára og voru 580 að jafnaði árið 2020. Laun og launatengd gjöld lækkuðu samhliða um 216 milljónir króna og námu alls 7,6 milljörðum. Stjórnunarkostnaður lækkaði einnig um 151 milljón króna milli ára og nam 579 milljónum króna árið 2020.

„Upplýsingatæknin reyndist órjúfanlegur þáttur í að halda samfélaginu gangandi og án hennar hefði atvinnulífið varla verið starfhæft. Mikið mæddi á framlínuþjónustu fyrirtækisins á árinu og var einhugur meðal starfsfólks um að standa þétt við bakið á viðskiptavinum okkar í gegum þessar miklu breytingar. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá mörg ný fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem nýta sér alrekstrarþjónustu Advania. Heimsfaraldurinn hafði hins vegar óhjákvæmileg áhrif á viðskiptavini okkar sem margir hverjir þurftu að fresta verkefnum og halda sér höndum. Eftir erfitt ár erum við ánægð með árangurinn,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania. 

Fram kemur að Advania hafi fengið í hendurnar ný og krefjandi verkefni í upphafi síðasta árs, m.a. við að aðstoða vinnustaði landsins að koma upp fjarvinnulausnum og heimatengingum. Einnig hafi fyrirtækið verið framhaldsskólum innan handa við að halda úti fjarnámi og aðstoðað fyrirtæki og opinberar stofnanir við að auka stafræna þjónustu. 

Eigið fé Advania á Íslandi nam 3,1 milljarði í árslok 2020. Skuldir félagsins lækkuðu um 310 milljónir króna milli ára og námu 4,4 milljörðum. Eiginfjárhlutfallið hækkaði því úr 38,8% í 41,2% milli ára. 

Í febrúar var tilkynnt um að sjóður í eigu fjárfestingabankans Goldman Sachs, ásamt danska fjárfestingasjóðnum VIA Equity, lykilstjórnendum á Norðurlöndum og nokkrum smærri hluthöfum hafi gert bindandi kauptilboð í meirihluta hlutafjár Advania. 

Stikkorð: Advania