Heimsmarkaðsverð á áli náði nýjum lægðum í gær en við lokun málmmarkaðarins í London (LME) kostaði framvirkur samningur til þriggja mánaða um afhendingu á áli 2.347,75 dali og er það lægsta verð ársins. Eins og fram hefur komið hefur álverð verið frekar lágt að undanförnu og hefur það verið undir 2.400 dölum á tonnið nær allan septembermánuð.

Í upphafi ársins kostaði tonnið af áli 2.467,5 dali og hefur verð því lækkað um 4,9% á árinu. Meðalverð ársins, til þessa, er 2.540 dalir en framan af ári var álverð í hæstu hæðum.