*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 25. janúar 2017 09:57

Lægsta boð í Dýrafjarðargöng 8,7 milljarðar

Metrostav og Suðurverk áttu lægsta boð í Dýrafjarðargöng. Tilboðið hljóðaði upp á 8,7 milljarða og er 630 milljónum undir kostnaðaráætlun.

Ritstjórn
Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks.
Hörður Kristjánsson

Tékkneski verktakinn Metrostav og Suðurverk áttu lægsta boð í fyrirhuguð Dýrafjarðargöng. Tilboðið hljóðaði upp á 8,7 milljarða króna, og er það 630 milljónum undir kostnaðaráætlun. Dofri Eysteinsson, forstjóri Suðurverks, segir að vonast sé til þess að hefjast handa við verkið seint í sumar. Frá þessu er greint á Vísi.is.

Verkið er það langstærsta á samgönguáætlun frá því að Norðfjarðargöng voru boðin upp fyrir fjórum árum. Alls bárust fimm tilboð en allir bjóðendur höfðu verið samþykktir í forvali. Eins og kemur fram að ofan - þá var tilboð Suðurverks lægst - upp á nálega 8.700 milljónir króna. Það er 94 prósent af 9,3 milljarða króna kostnaðaráætlun. Næstlægsta og þriðjalægsta boð voru á pari við kostnaðaráætlun. Hin tvö boðin voru talsvert hærri en kostnaðaráætlun.

110% öruggt

Haft er eftir Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra, að þetta sé allt innan þeirra marka sem miðað er við, í viðtali við Stöð 2. Þeir sem buðu lægst í verkið, Suðurverk og Metrostav, eru einnig þeir sem grafa nú Norðfjarðargöng. Haft er eftir Dofra Eysteinssyni, forstjóra Suðurverks, að það henti vel að fara beint í Dýrfjarðargöng. Vegamálastjóri segir jafnframt að það sé „110 prósent öruggt að nú verður ekki aftur snúið,“ og slær því á áhyggjur Vestfirðinga.

Reiknað er með því að verkið taki þrjú ár og að göngin verði tilbúin árið 2020. Þau verða 5,6 kílómetra löng og stytta Vestfjarðarveg milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 27 kílómetra.