Við val á leiguhúsnæði undir Samgöngustofu fundaði Framkvæmdasýsla ríkisins ekki með þeim tveimur aðilum sem skiluðu lægstu tilboðunum. Fyrirtækið Sýr ehf. fékk verkefnið og var tilboð þess um 700 milljónum króna hærra (án vsk.) en lægsta boð, þegar horft er á samningstímann allan.

Spurður að því af hverju Sýr varð fyrir valinu þrátt fyrir þetta bendir Hrafn Hlynsson, lögfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu, á að ákvörðunin var undanþegin lögum um opinber innkaup og það hafi verið mat framkvæmdasýslunnar að húsnæðið uppfyllti bestu skilyrði sem farið var fram á í húslýsingu og auglýsingu. Ragnari Þór Jónssyni, framkvæmdastjóri Faghúss, sem var með lægsta tilboðið, finnst að þessari undanþágu þurfi að breyta og segir að ríkið notfæri sér hana mjög mikið.

Ríkiskaup gaf út útboðsauglýsingu fyrir Samgöngustofu fyrir framtíðarhúsnæði. Af níu gildum tilboðum var Faghús með lægsta boðið, 1.250 krónu leiguverð á fermetrann fyrir húsnæði í Urð- arhvarfi í Kópavogi. Sýr ehf. bauð upprunalega 2.050 krónur á fermetrann fyrir húsnæði í Ármúla og lækkaði svo leiguna niður í 1.925 krónur.

Spurður um lækkun á tilboði Sýr og hvort það sé í lagi að lækka tilboð eftir útboð segir Hrafn að þetta hafi verið auglýsing, en ekki útboð, og að það hafi verið ákveðið að skoða fjögur lægstu tilboðin til að meta hvaða húsnæði hentaði stofnuninni best. Farið var í samningaviðræður við einn aðila, tilboðið var útfært nánar og í samningaviðræðunum fékkst betra verð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .