Ball Corporation, sem framleiðir áldósir, tryggði sér sögulega lágan lántökukostnað fyrir bandarískt fyrirtæki í rusl flokki (e. junk-rated). Fyrirtækið gaf út tíu ár skuldabréf, að andvirði 1,3 milljarða dollara, sem ber 2,875% nafnvexti, samkvæmt heimildum Financial Times .

Meðalávöxtunarkrafa ruslbréfa féll niður úr 6,85% í 5,46% í júlí sem er mesta mánaðarlega lækkun síðan maí 2009. Meðalávöxtunarkrafan fór upp fyrir 11% fyrr á árinu þegar mikil óvissa ríkti á fjármálamörkuðum vegna heimsfaraldursins en hún er í dag komin niður í 5,36%.

Ball Corporation hefur lánshæfiseinkunnina BB+, sem er hæsta einkunn sem ruslbréf geta fengið áður en þau komast í fjárfestingaflokkinn. Lántökukostnaður Ball var sá lægsti í sögunni fyrir tíu ára ruslbréf, samkvæmt gagnaveitunni Refinitiv.

„Þetta er annað merki það óseðjandi hungur fyrir ávöxtun sem heimurinn stendur frammi fyrir,“ hefur FT eftir John McClain, sjóðsstjóra hjá Diamond Hill Capital Management.

Ýmis met hafa fallið á skuldabréfamörkuðum í ár. Amazon tryggði sér sögulega lága ákvæðisvexti á þriggja ára, sjö ára og tíu ára fyrirtækjaskuldabréfum í júní. Alphabet, móðurfélag Google, sló metið fyrir tíu ára bréf í síðustu viku þegar það samþykkti 1,1% nafnvexti. Á mánudaginn tryggði Visa sér 0,75% nafnvexti á sjö ára skuldabréfi, að andvirði 500 milljónum dollara.