Fimm af tólf stærstu sveitarfélögum landsins munu lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á næsta ári, samkvæmt frumvörpum til fjárhagsáætlana sem eru nú alls staðar komin fram. Þetta kemur fram í samantekt Félags atvinnurekenda, FA.

Umrædd fimm sveitarfélög eru Kópavogsbær Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjarbær. Öll fimm lækka einnig álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði.

Tvö sveitarfélög, Hafnarfjarðarkaupstaður og Fjarðabyggð, lækka álagningarprósentu á íbúðarhúsnæði en halda álagningu á atvinnuhúsnæði óbreyttu.

FA beinir sérstaklega athygli að „sérstöðu“ Reykjavíkurborgar sem innheimtir hærra hlutfall af fasteignamati atvinnuhúsnæðis í fasteignaskatt en nágrannasveitarfélög. Álagningarhlutfall atvinnuhúsnæðis í Reykjavík nemur nú 1,60%.

Sjá einnig: Óbreyttir fasteignaskattar vonbrigði

Bent er þó á að þrátt fyrir lægra álagningarhlutfall þá hækka tekjur sveitarfélaganna af atvinnueignum nokkuð umfram verðbólgu vegna verulegra hækkana á fasteignamati á milli ára. Einungis í Vestamannaeyjum, sem lækkaði álagningarhlutfallið um 0,1 prósentustig, lækka tekjur af atvinnueignum á milli ára.

Mesta hækkunin á tekjum af atvinnueignum meðal sveitarfélaga sem ekki hreyfa skattprósentuna er í Árborg en þar nemur tekjuaukningin tæpum 11%. Þar á eftir kemur Akranes með 8,7% og svo Fjarðabyggð og Seltjarnarnes með 8%. FA tekur þó fram að Seltjarnarnes hafi haft um árabil langlægsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði meðal fjölmennari sveitarfélaga.

„Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum, með hækkandi fasteignamati, fengið gífurlegar fjárhæðir í formi hærri skatta á atvinnuhúsnæði. Á árunum 2015-2020 hækkuðu skattgreiðslur fyrirtækjanna í landinu til sveitarfélaga vegna fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði um 68%, eða 11,5 milljarða. Nú þegar atvinnulífið er að reyna að ná sér á strik eftir eina dýpstu kreppu síðustu ára er alveg fráleitt að skattbyrði fyrirtækjanna þyngist enn. Einkum og sér í lagi í ferðaþjónustu eru mörg dæmi um að atvinnurekendur hafi litlar eða einfaldlega engar tekjur af fasteignum sínum, en þeim er samt gert að borga af þeim síhækkandi skatt,“ segir Ólafur Stephensen , framkvæmdastjóri FA, á vef samtakanna.

Samanburður FA á álagningu fasteignaskatta tólf stærstu sveitarfélaganna. Mynd tekin af vefsíðu FA .