Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfiseinkunnir Rússlands. Átök Rússa á Krímskaga og innlimun skagans inn í Rússland er ástæða þess að einkunnin er lækkuð. Þetta er annað matsfyrirtækið af þeim þremur stóru sem hafa lýst yfir áhyggjum af framferði Rússa. Hitt er S&P, sem varaði við því í gær að lánshæfishorfur landsins gætu lækkað vegna deilunnar um Krímskaga.

Ráðamenn á Vesturlöndum hafa brugðist harkalega við íhlutun Rússa á Krímskaga. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gær að hömlur hafi verið settar á fjármagnsflutninga samverkamanna Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og þeir beittir þvingunum.

Rússnesir auðkýfingar og aðrir sem hafa fjárfest í skráðum hlutabréfum í Rússlandi hafa vafalítið fundið fyrir Krímskagamálinu. Gengi aðalvísitölunnar í rússnesku kauphöllinni hefur nefnilega fallið um 10% frá mánaðamótum.