*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 9. október 2019 15:47

Lækka fasteignamat í Kringlu

Reitir fasteignafélag hækka afkomuhorfur vegna lækkunar á fasteignamati í hluta af Kringlu.

Ritstjórn
Kringlan í Reykjavík.
Aðsend mynd

Reitum fasteignafélagi hefur borist tilkynning frá Þjóðskrá Íslands um lækkun á fasteignamati á hluta af Kringlu fyrir árin 2015-2019, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu á vef Kauphallar Íslands. 

Reitir fasteignafélag og Þjóðskrá hafa um nokkurt skeið átt í samskiptum um leiðréttingu á tilteknum einingum í húsinu í kjölfar athugasemda sem Reitir hafa gert við skráningu þeirra.

Alls lækkar nú fasteignamat áranna uppsafnað um tæp 16% og áætlar félagið að lækkun á álögðum gjöldum Reita fyrir húsið sé tæpar 150 milljónir króna fyrir allt tímabilið en þar af lækka álögð gjöld fyrir árið 2019 um rúmar 15 milljónir króna. 

Vegna þessa telur félagið þörf á því að hækka horfur um afkomu félagsins á árinu. Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði nú á bilinu 7.700 - 7.850 milljónir króna í stað 7.550 - 7.700 milljóna áður. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á tekjum en þær eru áætlaðar á bilinu 11.700 - 11.850 milljónir króna á yfirstandandi ári.