Ákveðið var á aðalfundi NOVA ehf. í byrjun ágúst að lækka hlutafé félagsins um 1.155 milljónir króna til jöfnunar taps. Hlutafé félagsins fyrir lækkun var 2.755 milljónir en verður nú 1.600 milljónir. Fram kem­ur í fundargerð aðalfundarins að lækkunin kemur eingöngu til lækkunar á hlutafé Novator ehf. en ekki annarra hluthafa vegna taprekstrar á þeim árum sem Novator var eini hluthafinn.

Þess má geta að samkvæmt síð­asta ársreikningi Nova fyrir árið 2011 var Novator með 79% hlut í félaginu en Novator Finland með 19% hlut. Novator Finland er í eigu Novator International sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Eftir þessa breytingu verður Novator ehf. með tæplega 64% hlut í Nova og aðrir með um 36%.