*

mánudagur, 20. janúar 2020
Erlent 22. júlí 2019 19:00

Lækka horfur Boeing

Matsfyrirtækið Fitch lækkaði í dag horfur flugframleiðandans Boeing úr stöðugum í neikvæðar.

Ritstjórn
737 Max þoturnar hafa verið á jörðu niðri í ársþriðjung og ekki ljóst hvenær þær takast á loft á ný.
epa

Matsfyrirtækið Fitch lækkaði í dag horfur flugframleiðandans Boeing úr stöðugum í neikvæðar. Lánshæfiseinkunn félagsins er þó óbreytt frá síðasta mati Fitch. Ástæðuna má rekja til þess vafa sem uppi er vegna 737 Max vélanna sem kyrrsettar hafa verið á jörðu niðri um mánaðaskeið. Vélarnar voru kyrrsettar eftir að 346 fórust í tveimur slysum í mars.

Sagt var frá því fyrir helgi að enn væri óvissa um hvenær vélarnar komast á ný í háloftin en kostnaður félagsins vegna þessa nemur um fimm milljörðum dollara, andvirði um 620 milljarða íslenskra króna. Ársfjórðungsuppgjör þess er að vænta í vikunni og er búist við því að hagnaður muni verða lítill sem enginn.

Möguleiki er á að sú staðreynd muni hafa neikvæð áhrif á aðgang Boeing að lánsfé en þrátt fyrir það hélt Fitch lánshæfiseinkuninni F1. Sagt er frá matinu á vef Reuters.

Undir lok mars námu heildarskuldir Boeing 14,7 milljörðum dollara en í matsskýrslu Fitch er gert ráð fyrir því að skuldsetningin muni aukast um allt að tíu milljarða til viðbótar á næstu mánuðum.

„Aðstaðan sem er uppi vegna Max vélanna mun einnig hafa áhrif á orðstír og álit almennings á Boeing,“ segir í mati Fitch.

Stikkorð: Boeing