Lánshæfismatsfyrirtækið S&P hefur lækkað lánshæfismat Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Mat bankanna þriggja lækkar um eitt þrep í öllum tilvikum, úr BBB+/A-2 með neikvæðum horfum í BBB/A-2 með stöðugum horfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum og er þar hlekkjað á matið fyrir bankana þrjá. Í matinu er vísað til minni efnhagsumsvifa vegna áhrifa veirufaraldursins sem herjar á heiminn og er það ástæða lækkunarinnar. Gerir S&P ráð fyrir því að meira en sjö prósent samdráttur verði á árinu.

Í matinu segir að bankarnir eigi nokkuð af útlánum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Það auki áhættu þeirra í því efnahagsumhverfi sem nú er uppi. Afkoma bankanna hafi ekki verið með besta móti undanfarið og ástandið muni aðeins ýta undir það. Lækkandi vextir og aukin ásókn í lán hjá lífeyrissjóðum bæti ekki úr skák. Væntanlega verði afkoma bankanna nálægt núlli á árinu en væntanlega muni afkoman batna á því næsta þó hagnaður verði ekki mikill.

„Lífeyrissjóðir munu áfram hafa áhrif á fasteignalánamarkaðinn [...]. Sjóðirnir, sem lúta ekki jafn ströngum reglum og bankarnir, lánuðu fyrir um helmingi nýrra fasteignalána árið 2019. Stjórnvöld hafa aðeins gert minniháttar breytingar til að rétta þennan mismun,“ segir í matinu.