Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur lækkað lánshæfismat ríkissjóðs Grikklands og telur fjárhagslegar skuldbindingar hans ósjálfbærar. BBC News greinir frá þessu.

S&P hefur bæði lækkað lang- og skammtíma lánshæfiseinkunn Grikkja úr flokknum B-/B í CCC+/C. Einkunnin þýðir að staða ríkissjóðs landsins sé brothætt og reiði sig á hagstæð skilyrði í hagkerfinu til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar. Þá metur S&P framtíðarhorfur neikvæðar.

Í gær birtu grísk stjórnvöld ársuppgjör síðasta árs, en það sýndi að halli ríkissjóðs var enn meiri en ráðgert var. Nam hann 3,5% af vergri landsframleiðslu en ekki 0,8% líkt og áætlanir gerðu ráð fyrir.

Grísk stjórnvöld eiga nú í samningaviðræðum við lánardrottna sína á evrusvæðinu en Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði hins vegar í gær að engin lausn væri í sjónmáli. Næsti fundur milli Grikkja og lánardrottna mun fara fram þann 24. apríl næstkomandi.