Starfsmenn Google í Bandaríkjunum sem velja að vinna heima gætu þurft að horfa upp á laun sín lækka. Netrisinn er búinn að þróa launareiknivél gerir starfsfólki kleift að sjá áhrif þess að vera í fjarvinnu eða að flytja á milli skrifstofa.

Google hyggst ekki skerða laun starfsmanna sem búa í sömu borg og þar sem skrifstofurnar sem þeir tilheyra er staðsett. Því mun nýja launastefnan bitna helst á starfsmönnum sem þurfa að annars að ferðast langar vegalengdir í vinnu, að því er kemur fram í frétt Reuters .

Haft er eftir einum starfsmanni í Seattle að laun hennar yrðu lækkuð um 10% ef hún ákveður að vinna alfarið heima en hún býr í tveggja klukkustunda fjarlægð frá skrifstofunni.

Þá sýnir reiknivélin að laun starfsmanns Google sem býr í Stamford í Connecticut, sem er í klukkustundar fjarlægð frá New York skrifstofunum, geti lækkað um allt að 15% ef hann velur að starfa áfram í gegnum fjarvinnu. Hins vegar yrðu laun samstarfsmanns hans í New York, sem vinnur heima og býr innan borgarinnar, óbreytt. Launamunurinn er talinn vera um 5%-10% í Seattle, Boston og San Fransisco.

Launaskerðing gæti orðið allt að 25% fyrir starfsmenn San Fransisco skrifstofu Google sem flytja innan Kaliforníu ríkis og ákveða að vinna heima, miðað við útreikninga starfsmanna.

„Starfskjör okkar hafa alltaf ráðist af staðsetningu og við erum alltaf við toppinn á launakjörum hvers staðbundins markaðar,“ er haft eftir talsmanni Google. Hann segir að launareiknivélin sé hugsuð til að hjálpa starfsfólki að taka upplýstar ákvarðanir vegna fjarvinnu eða flutninga.

Facebook og Twitter hafa einnig lækkað laun starfsmanna sem hafa flutt til ódýrari borga eftir að þeim bauðst að vinna heima.