Lækka má árlegan vaxtakostnað ríkisins um 15 milljarða króna á ári sé hugsanlegum ágóða ríkisins af samningum við kröfuhafa gömlu bankanna nýttir til niðurgreiðslu skulda. Forsendur þess eru að ef  samningar við kröfuhafa gömlu bankanna gefa ríkinu um 250 milljarða króna í aðra hönd eins og rætt hefur verið verði sá ágóði nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins.

Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs þar sem fjallað er um gífurlega skuldsetningu ríkissjóðs síðustu ár. Þar kemur fram að árlegur viðbótarvaxtakostnaður ríkisins nemur rúmlega 50 milljörðum króna vegna þessa.

Í skoðun Viðskiptaráðs segir að nú á lokametrum kosningabaráttunnar séu línur teknar að skýrast í helstu stefnumálum stjórnmálaflokkanna. Afleiðingar fjármálahrunsins séu áberandi í umræðunni í aðdraganda kosninga sem sé miður því það bendi til þess að lífskjarabati síðustu ára hafi ekki verið jafn hraður og vænst var í upphafi kjörtímabilsins.

„Hagtölur síðustu tveggja ára renna stoðum þar undir, þó ákveðinn árangur hafi náðst s.s. í viðsnúningi á hallarekstri ríkissjóðs,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

„Hagvöxtur er talsvert undir væntingum og upphaflegum spám, fjárfestingar eru af skornum skammti, skuldsetning er almennt of há, vaxtaumhverfið er ekki beysið og hægt þokast í afnámi gjaldeyrishafta. Það er í þessu ljósi sem þarf að rýna kosningaloforð stjórnmálaflokkanna, þ.e. með hvaða hætti hyggjast þeir færa þessa þætti til betri vegar, hvaða leiðir eru skilvirkar og líklegar til að hámarka lífskjör til lengri tíma án þess að skapa byrðar fyrir komandi kynslóðir. Einfalda svarið við þessu er aukin framleiðni, þ.e. að gera fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra kleift að skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði.“

Sjá skoðun Viðskiptaráðs í heild sinni.