Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að teppasalan Cromwell Rugs, sem er í eigu Íranans Alan Talib, hafi gerst brotleg við auglýsingar um verðlækkun. Áfrýjunarnefndin felldi hins vegar úr gildi hluta ákvörðunarinnar og taldi því sekt upp á eina milljón króna hæfilega en upphaflega hafði Neytendastofa lagt á þriggja milljóna króna sekt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Nefndin staðfesti ákvörðun Neytendastofu um brot þar sem ekki var sýnt fram á að verðlækkunin væri raunveruleg. Hins vegar var hluti ákvörðunarinnar sem sneri að fullyrðingum um tilefni verðlækkana felld úr gildi.

Sjá einnig: Neytendastofa sektar teppasalann aftur

Neytendastofa hefur í tvígang sektað teppasalann en framangreindur úrskurður áfrýjunarnefndar nær utan um fyrri sektina sem tilkynnt var um í október. Í byrjun þessa mánaðar lagði Neytendastofa á aðra sekt til viðbótar að fjárhæð 1 milljón króna þar sem stofnunin taldi Cromwell Rugs hafa viðhaft óréttmæta viðskiptahætti í auglýsingum í Morgunblaðinu í desembermánuði.