*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 13. janúar 2021 21:45

Lækka sekt vegna enska boltans

Sekt sem Síminn fékk vegna pakkatilboða á enska boltanum hefur verið lækkuð úr 500 milljónum í 200 milljónir króna.

Ritstjórn
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Haraldur Guðjónsson

Sekt Símans vegna brota á samkeppnislögum í tengslum við pakkatilboð á enska boltanum hefur verið lækkuð úr 500 milljónum króna í 200 milljónir króna af áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síminn sendi frá sér í kvöld.

Samkeppniseftirlitið sektaði Símann upphaflega í maí í fyrra þar sem Síminn var talinn brjóta gegn ákvæðum sáttar við eftirlitið. Meðal annars var fundið að því að enski boltinn var ekki á sömu kjörum stakur og með annari þjónustu Símans á borð við heimilispakkanum. 

Síminn fagnað lækkun sektarinnar. „Það sýnir að hið meinta brot á skilyrðum sem Símanum voru sett á fyrri árum var ekki með þeim hætti er Samkeppniseftirlitið úrskurðaði um.“ segir í tilkynningu Símans.

„Verð á áskrift að ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur lækkað eftir að Síminn tók við sýningarréttinum og aldrei hefur verið sýnt frá fleiri leikjum í beinni útsendingu. Fjöldi viðskiptavina með aðgang að efninu hefur aldrei verið meiri enda þjónustan hóflega verðlögð og aðgengileg öllum, óháð fjarskiptafélagi,“ segir enn fremur í tilkynningunni. 

Lækkun sektarinnar mun bæta afkomu Símans. Fyrirtækið áætlar að EBITDA rekstrarhagnaður félagsins nemi 10,4 til 10,5 milljörðum króna árið 2020 en áður birt EBITDA spá Símans fyrir árið 2020 var 9,9 til 10,3 milljarðar króna.

Stjórnendur Símans ætla að fara betur yfir úrskurðinn og íhuga hvort skjóta eigi málinu til dómstóla.