Ný frumvarpsdrög til laga gera ráð fyrir að hætt verði að skattleggja höfundargreiðslur til rétthafa sem tekjuskatt heldur verði þær skattlagðar sem eigna- eða fjármagnstekjur. Um er að ræða höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta og greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa, þar með talið Stefgjöld.

Það þýðir að í stað þess að bera 36,94% til 46,24% skatt, með persónuafslætti, fer skatturinn niður í 22% eins og þegar um aðrar arð- og eignagreiðslur er að ræða. Á móti kemur verður ekki hægt að nýta persónuafslátt á móti greiðslunum.

Drög að frumvarpinu, sem ætlað er að breyta lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, er komin í samráðsgátt til umsagnar, og er umsagnarfrestur til 22. mars næstkomandi.

Úrlausnarefni og markmið frumvarpsins má rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram sú stefnuyfirlýsing að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum og er með frumvarpinu stigið skref til eflingar lista og menningar.