*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 2. janúar 2018 08:58

Lækka veiðigjöld á minni fyrirtæki

Hækkun veiðigjalda á síðasta ári var allt að 300%, en Sjávarútvegsráðherra hyggst bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætla að endurskoða veiðigjöld í sjávarútvegi. Er ætlunin að lækka álögurnar á lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki með afkomutengingu segir í Morgunblaðinu.

Lilja Rafney, sem kosin var á þing fyrir Vinstrihreyfinguna - Grænt framboð, segir breytinguna rúmast innan orðalags stjórnarsáttmála VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um breytingar á veiðigjöldunum. „Við erum að horfa til litlu og meðalstóru fyrirtækjanna sem eru ekki að ráða við þá miklu hækkun sem varð á veiðigjaldinu 1. september á síðasta ári,“ segir Lilja Rafney.

„Sú hækkun var mjög mikil, alveg frá 200 prósentum og yfir 300 prósenta hækkun hjá sumum. Það er farin af stað vinna í ráðuneytinu við að skoða þetta. Sú vinna á að ganga hratt fyrir sig.“ Kristján Þór, sem kosinn var á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hyggst leggja fram nýtt frumvarp um málið eins og fram kemur í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt var í desember.

„Það frumvarp mun taka mið af þeim áherslum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett í stjórnarsáttmála og miða að því að veiðigjöld standi undir kostnaði ríkisins af fiskveiðistjórnuninni annars vegar og hins vegar ákveðinni hlutdeild af arði af auðlindinni.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is