. Gengi bréfa Icelandair Group er metið á 9,2 krónur á hlut í nýlegu verðmati Capacent á félaginu en verðmatsgengið lækkar um 0,3 krónur frá síðasta mati. Verðmatsgengið er samt sem áður 7,5% yfir gengi bréfa félagsins við lokun markaða á miðvikudag. Að mati Capacent bendir uppgjör Icelandair til þess að fyrirtækið sé að ná betri tökum á rekstrinum en samt sem áður séu margir óvissuþættir til staðar og margt óljóst. Þá sé erfitt að átta sig á undirliggjandi rekstri félagsins vegna bóta frá Boeing sem ekki eru tilgreindar sérstaklega í rekstrarreikningi.

Að mati Capacent eru horfur félagsins bjartari ef MAX vélarnar taka á loft í mars eins og Icelandair gerir nú ráð fyrir. Aftur á móti telja greinendur að ólíklegt sé að mikill viðsnúningur verði í rekstri á næsta ári. Capacent reiknar almennt með hægari rekstrarbata þá sérstaklega vegna þess að samkeppnisstaða Icelandair hafi ekki batnað jafn mikið og greinendur vonuðust til með veikari krónu. Þá er einnig nenft að sala á 75% hlut í Icelandair Hotels auki virði Icelandair miðað við söluverð þá sérstaklega í ljósi þess að hótelin hafi ekki verið að skila miklu til rekstrarhagnaðar.