Jakobsson Capital metur gengi bréfa Kviku banka á 11,4 krónur á hlut í nýlegu verðmati á félaginu. Verðmatsgengið var 22 prósent undir markaðsvirði bréfa félagsins. Í síðasta verðmati Jakobsson Capital var gengi Kviku metið 11,8 krónur á hlut.

Félagið er metið á 25 milljarða en markaðsvirði félagsins var um 32 milljarður við lokun markaða á föstudaginn, eða 15,15 krónur á hlut.

Skýrist lægra verðmat helst af því að talsverð þynning hefur orðið á hlutafé Kviku síðustu mánuði þrátt fyrir mikla hækkun á gengi bréfanna.

Í matinu er gert ráð fyrir að virkur vaxtamunur verði á bilinu 1,3% til 1,9% á spátíma, að hreinar fjármunatekjur verði frá 1,92 til 2,45 milljarðar og að hagnaður ársins fyrir skatt muni nema 2,125 milljörðum. Gert er ráð fyrir að hagnaður fyrir skatt til lengri tíma verði að óbreyttu á bilinu 3,25 til 3,75 milljarðar.

Fjármagnskostnaður Kviku var endurskoðaður og lækkaði ávöxtunarkrafa eigin fjár úr 11,4% í 11,2%. Sértækt álag á Kviku var einnig endurskoðað í ljósi þess að stöðugleiki í rekstri hefur verið meiri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þá hafi efnahagsreikningur Kviku breyst og vægi innistæðna og skuldabréfa farið úr 30% í 46,5%.

Ávinningur af sameiningu 14 milljarðar

Í matinu er vikið að áhrifum sameiningar Kviku og TM. Er gróflega áætlað að gengi Kviku við sameiningu verði 14 krónur á hlut og að verðmæti hlutafjár Kviku hækki um 23%, en því beri þó að taka með fyrirvara:

„Samtals er ávinningurinn af sameingunni um 14 ma.kr. gróflega áætlað. Framangreint þýðir að gengi Kviku á markaði með væntum samlegðaráhrifum, 46,6% hlut í hinu sameinaða félagi og þynningu hlutafjár er um 14,0. Sameining hækkar því verðmæti hlutafjár Kviku um 23%. Þessu verður þó að taka með öllum fyrirvörum," segir í matinu.