Hámarksfjárhæð sem rúmlega 15 milljónir bresk heimili geta verið rukkuð árlega fyrir gas- og rafmagnsreikninga mun lækka um 84 pund, eða rúmlega 15 þúsund krónur, milli ára eftir að breskir eftirlitsaðilar lækkuðu verðþak til að endurspegla lægra heildsöluverð á rafmagni. Financial Times segir frá

Verðþakið verður lækkað niður í 1.042 pund á ári, sem er lægsta hámarksverð frá því að það var kynnt til sögunnar árið 2019, eftir að Theresa May, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lofaði breytingum þess efnis árið 2017.

„Verðþakið er skilvirkasta ráðstöfun til að vernda neytendur sem við höfum séð í tengslum við orkukostnað og hún hefur skilað einstökum árangri,“ er haft eftir Jonathan Brearley, forstjóra bresku orkustofnunarinnar (Ofgem). Hann segir að hámarksverðið hafi sparað 11 milljónum neytenda um einn milljarð punda á síðasta ári.

„Þar sem heimili hafa verið að nota um 20% meira rafmagn en í venjulegu árfari, og mörg þeirra að horfa fram á óvissu, er verðþakið mikilvægara en nokkru sinni fyrr,“ bætir Brearly við.

Heildsöluverð hefur hækkað aðeins að undanförnu, að sögn Ofgem. Stofnunin hyggst breyta verðþakinu aftur í apríl næstkomandi ef verðið heldur áfram að hækka á komandi mánuðum.