Efnahagssamdráttur á evrusvæðinu er slíkur að mikilvægt er að evrópski seðlabankinn lækki stýrivexti á ný. Þetta er mat fjármálasérfræðinga sem vitnað er til í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times.

Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti í vor og standa vextir á evrusvæðinu í 1,5 prósentustigum. Wall Street Journal býst reyndar við því að Mario Draghi, sem tekur við stóli seðlabankastjóra af Jean-Claude Trichet um næstu mánaðamót muni láta eitt af sínu fyrstu verkum verða að koma stýrivöxtum niður í 1,0% fyrir áramót.

Financial Times bendir á að kaupmáttur á evrusvæðinu hafi dregist mikið saman, efnahagssamdráttur vofi yfir og dyr lánsfjármarkaða lokaðar bæði bönkum sem fyrirtækjum. Í ofanálag hafi framleiðsluvísitala evrusvæðisins farið úr 49,1 stigi í september í 47,2 stig nú. Svo lág tala hefur ekki sést síðan í júlí árið 2009 þegar heimshagkerfið var rétt að byrja að sleikja sárin eftir afleiðingarnar af falli bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers um miðjan september 2008.