*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 27. febrúar 2020 08:02

Lækkað um 74 milljarða

Öll félögin 20 á aðallista Kauphallarinnar hafa lækkað í verði það sem af er vikunni.

Ritstjórn

Heildarmarkaðsvirði félaganna á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefur lækkað um 74,4 milljarða króna það sem af er vikunni eða um 5,9% en það stóð við lokun markaða á miðvikudag í 1.179,8 milljörðum.

Lækkanirnar má rekja til ótta fjárfesta um allan heim af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á heimshagkerfið en um helgina var einnig greint frá því að veiran hefði dreifst meira fyrir utan Kína. 

Öll félögin á markaðnum hafa lækkað það sem af er vikunni en langmest lækkun hefur orðið á bréfum Icelandair Group eða 20,8% en þess má þó geta að velta með bréf félagsins síðustu þrjá daga nemur einungis 752 milljónum króna í alls 256 viðskiptum. Meðal stærð viðskipta með bréf félagsins síðustu þrjá daga nemur því einungs um 3 milljónum króna. 

Fyrir utan Icelandair þá hafa fasteignafélögin Reginn og Eik lækkað um 9,8 og 8,7% en mest lækkun á markaðsvirði var á verðmætustu félögunum. Bréf Marel hafa á síðustu þremur dögum lækkað um 4,9% og markaðsvirðið um 23,1 milljarð auk þess sem bréf Arion banka hafa lækkað um 7% og markaðsvirðið um 11 milljarða.