Síðan um mitt ár 2011 hefur verð áls í málmkauphöllinni í London fallið um 36 prósent. Þrátt fyrir að eftirspurn eftir áli hafi farið vaxandi undanfarin ár hefur hún ekki aukist í takt við framboðið. Heimsframleiðsla á áli hefur tvöfaldast frá árinu 2005. Þessi aukning heimsframleiðslunnar er einkum og sér í lagi vegna stóraukinnar framleiðslu í Kína, en álframleiðsla í Kína hefur tvöfaldast frá árinu 2011.

Ál 36,4% af vöruútflutningi

Ljóst er að lækkandi álverð hefur og mun koma til með að hafa töluverð áhrif hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni nam útflutningur á áli á síð­asta ári 844.722 tonnum í heild og nam verðmæti þess 214.835 millj­ónum króna (FOB verðmæti), sem er 36,4% af heildarvöruútflutningi landsins.

Íslenskir álframleiðendur og orkufyrirtæki eru þau fyrirtæki sem finna sterkast fyrir lækkandi álverði og eru þegar farin að bregð­ ast við þróun síðustu mánaða.

Hefur áhrif á 31% af tekjum Landsvirkjunar

Hluti af orkusölusamningum Landsvirkjunar er til að mynda tengdur þróun álverðs og samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hefur álverð áhrif á um 31% af tekjum fyrirtækisins. Í skriflegu svari frá Landsvirkjun segir að unnið sé í því að draga úr álverðstengingu í tekjum félagsins, nú síðast með samningum við Rio Tinto Alcan árið 2010 þar sem hætt var með tengingu við álverð. Frá árinu 2009 hefur hlutfall tekna með tengingu við álverð lækkað úr 51% í 31% en lækkandi álverð mun enn koma til með að hafa áhrif á framtíðartekjur Landsvirkjunar.

„Um nákvæmlega hversu mikið m.v. þróunina undanfarið getur verið erfitt að segja til um hér og nú, bæði sveiflast álverðið mjög mikið innan tímabila og þyrfti því að reikna það reglulega upp. Við horfum á frávik milli tímabila en þar kemur einnig til að félagið tekur álvarnir til að minnka sveiflur,“ segir í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið.

Nánar er fjallað um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .