*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 12. október 2014 11:24

Lækkandi olíukostnaður á að koma fram í fargjöldum

Icelandair mun á næstu fjórum árum fá afhentar og taka í notkun nýjar og sparneytnari Boeing þotur.

Ritstjórn

Verð á olíu hefur ekki verið lægra í rúm tvö ár og mögulegt er að það muni hafa áhrif til lækkunar flugfargjalda hjá Icelandair á næstu misserum. Fjallað er um málið á vef Túrista.

Eldsneytisálag hefur um langa hríð verið stór hluti af fargjaldi flugfélaga. Hjá Icelandair er eldsneytisgjaldið í sumum tilvikum meira en helmingur af heildarfargjaldinu.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við Túrista að eldsneytisgjald sé reglulega tekið til skoðunar og ef eldsneytiskostnaður lækki þá eigi það að koma fram í fargjöldum.

Icelandair mun á næstu fjórum árum fá afhentar nýjar og sparneytnari Boeing þotur, en gengið var frá kaupum á þeim í fyrra. Nýju vélarnar eiga að vera um fimmtungi sparneytnari en þær vélar sem skipa núverandi flugflota.