Hagnaður franska olíufyrirtækisins Total á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 2% milli ára og nam nú um 3,5 milljörðum bandaríkjadollara. Jafngildir það um 425 milljörðum íslenskra króna.

Patrick Pouyanne, nýr forstjóri Total, ætlar að ferðast til Mið-Austurlanda, Evrópu og Bandaríkjanna til þess að hitta lykiltengiliði félagsins og hluthafa til þess að ræða stöðuna á olíumarkaði.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið ört lækkandi undanfarna mánuði. Hefur það þannig lækkað um 25% frá því í sumar. Bæði Alþjóðaorkumálastofnunin og Samtök olíuútflutningslanda hafa lækkað eftirspurnarspár sínar og er búist við því að verðið geti lækkað enn frekar. Framboðið er of mikið á meðan eftirspurn minnkar.