Frá því í sumar hefur verð á hráolíu lækkað um fimmtung og er komið úr 115 dollurum niður fyrir 90 dollara. Verðið hefur ekki verið lægra í tvö ár. Bæði Alþjóðaorkumálastofnunin og Samtök olíuútflutningslanda (OPEC) hafa lækkað eftirspurnarspár sínar og búist er við því að verð geti lækkað enn frekar. Ýmsar ástæður eru fyrir þessari þróun.

Stóraukin framleiðsla Bandaríkjanna á olíu úr leirsteini hefur breytt stöðunni talsvert, og minni eftirspurn frá Asíu, ekki síst Kína, og Evrópu, hefur sitt að segja líka. Framleiðsla Bandaríkjanna hefur aukist um fjórar milljónir olíutunna á dag frá árinu 2008, sem hefur minnkað innflutning þeirra á olíu frá OPEGríkjunum um næstum helming. Þá hefur Líbía náð sér á strik í framleiðslu og átök í Írak hafa ekki haft eins mikil áhrif og búist var við.

Samt sem áður hefur framleiðsla hefðbundnu olíuríkjanna ekki verið minnkuð. Einhver OPEC-ríkjanna eru sögð vilja minnka framleiðsluna til þess að reyna að halda verðinu uppi. Kúvæt hefur nú þegar sagt að slíkt sé ekki vænlegt eða líklegt, því slíkar aðgerðir myndu ekki endilega skila árangri. Það var reynt á níunda áratug síðustu aldar með slæmum afleiðingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .