Raforkuverð á Elspot markaði Nord Pool í norðanverðri Evrópu hefur verið með lægsta móti síðustu tíu daga. Þar eiga um 370 aðilar frá 20 löndum viðskipti á heildsölumarkaði með raforku. Þetta kemur fram í markaðspunktum Arion banka í dag en þar er jafnframt fjallað um möguleg neikvæð áhrif þessa á samkeppnisstöðu Landsvirkjunar.

Verðið á þessum markaði hefur verið um eða undir $10/MWst undanfarna viku sem er nokkuð langt undir meðalverði ársins til þessa, $41,1/MWst. Þetta er jafnframt mun lægra verð en stóriðjan á Íslandi greiðir Landsvirkjun að meðaltali fyrir orkunotkun sína eða $28,7/MWst á síðasta ári.

Í markaðspunktunum er bent á að raforkuverð hefur nú lækkað stöðugt frá áramótum og virðist áfram stefna í sömu átt. Þetta er meðal annars rakið til þess að rignt hefur óvenju mikið í Norður-Evrópu svo uppistöðulón er full og framleiðslugeta vatnsaflsvirkjana því vel nýtt hjá stærstu framleiðendum.

Greiningardeildin telur að hér sé um ákveðið áhyggjuefni að ræða fyrir íslenska raforkuframleiðendur. Þetta getur verið til marks um að samkeppnishæfni fyrirtækjanna verði ekki jafnsterk á næstu misserum og vonast hefur verið eftir. Spár sem Landsvirkjun hefur stuðst við á opinberum vettvangi hafa samkvæmt greiningardeildinni bent til að orkuverð fari hækkandi á næstu árum.