Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa lækkað um 0,7%-1,2% í viðskiptum dagsins. Lækkanir á hlutabréfamarkaðnum eru að stórum hluta raktar til ummæla Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sem mætti fyrir þingnefnd í dag.

Powell sagði að nýlegar hagtölur hefðu borið merki um sterkara hagkerfi en Seðlabanki Bandaríkjanna átti von á. Fyrir vikið gæti bankinn þurft að hækka vexti meira en áður var búist við, að því er segir í umfjöllun WSJ. Jafnframt væri bankinn tilbúinn að hraða vaxtahækkunarferlinu.

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur þann 1. febrúar síðastliðinn og er þeir nú á bilinu 4,5%-4,75%. Næsta vaxtaákvörðun bankans er þann 22. mars næstkomandi. Í umfjöllun Bloomberg segir að sífellt fleiri fjárfestar eigi nú von á að því að seðlabankinn hækki vexti um 50 punkta fremur en 25 punkta.

Í desember síðastliðnum áttu flestir nefndarmenn peningastefnunefndar bankans von á að stýrivextir í Bandaríkjunum myndu hækka upp í 5,0-5,5% á þessu ári. Von er á nýjum spám á næsta fundi.

Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 6,4% í janúar síðastliðnum. Powell sagði að þótt verðbólgan hefði hjaðnað nokkra mánuði í röð þá væri enn töluvert í að hún hjaðni niður í 2% verðbólgumarkmið bankans.

Lækkun helstu hlutabréfavísitala Bandaríkjanna það sem af er degi:

  • S&P 500: -1,0%
  • Nasdaq Composite: -1,2%
  • Dow Jones Industrial Average: -0,7%