Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa lækkað um 0,3%-1,5% í dag. Fjárfestar sýna aukna vargætni í byrjun vikunnar í ljósi vaxtaákvarðana nokkurra af stærstu seðlabönkum heims á næstu dögum, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.

Hlutabréfamarkaðir hafa verið nokkuð hagfelldir fyrstu vikur ársins, m.a. vegna væntinga um að verðbólga hjaðni hraðar og að seðlabankar ráðist því í minni vaxtahækkanir en áður var talið. Hlutabréf félaga sem byggja virði sitt að miklu leyti á væntingum um framtíðartekjur, þar á meðal sérhæfð yfirtökufélög og rafmyntafélög, hafa leitt lækkanir í ár.

Fjárfestar eru engu að síður með áhyggjur um stöðu hagkerfisins. Væntingar eru um að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynni um 0,25 prósentu vaxtahækkun á miðvikudaginn. Fjárfestar munu rýna í skilaboð um næstu skref seðlabankans. Einnig er talið að Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki tilkynni um vaxtahækkanir á fimmtudaginn.

„Markaðurinn hefur verið á flugi síðustu vikurnar. Fjárfestar munu þó líklega gæta að sér eftir því sem nær dregur fundi seðlabankans,“ hefur WSJ eftir greinanda hjá Principal Asset Management. „[Jerome Powell seðlabankastjóri] á sennilega eftir að ítreka skilaboð sín um að vaxtahækkunarferlinu sé ekki lokið.“

Lækkun bandarískra hlutabréfavísitala það sem af degi:

  • S&P 500: -0,9%
  • Dow Jones Industrial Average: -0,3%
  • Nasdaq Composite: -1,5%